23 kassar – nýtt met?

Á dróttskátafundi síðasliðið þriðjudagskvöld fóru dróttskátarnir í kassaklifur á planinu milli skátaheimilisins og MH. Margir spreyttu sig á þrautinni en enginn komst þó jafn hátt og Auður Eygló, sem fór upp 23 kassa. Óskum henni til hamingju! Á næsta fundi verður skorið út í grasker í tilefni af Hrekkjavökunni.

dsc08832-2

Gulur, grænn og appelsínugulur – nýr dagskráhringur dreka

Á morgun hefst næsti dagskráhringur drekaskáta, með yfirskriftinni „samfélagið/umhverfið“. Hópnum hefur verið skipt upp á nýtt, í gulan, grænan og appelsínugulan hóp. Í hringnum ætlum við m.a. að læra dulmál, skoða hvaðan pappír og plast kemur og af hverju við flokkum. Við ætlum líka að taka þátt í verkefninu Jól í skókassa sem er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn til þess að gleðja önnur börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Gjafirnar eru settar í skókassa og til þess að tryggja að öll börnin fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að ákveðnir hlutir séu í hverjum kassa.

 •  Leikföng, t.d. litla bíla, bolta, dúkku, bangsa eða jó-jó.
 • Skóladót, t.d. penna, blýanta, yddara, strokleður, skrifbækur, liti, litabækur eða vasareikni.
 • Hreinlætisvörur. tannbursta og tannkrem, sápustykki, greiðu, þvottapoka eða hárskraut.
 • Sælgæti, t.d. sleikjó, brjóstsykur, pez, tyggjó eða karamellur.
 • Föt, t.d. húfu, vettlinga, sokka, trefil, bol eða peysu.

Hver hópur setur saman einn eða tvo kassa og því þurfa allir að koma með aðeins 2-3 hluti sem þeir vilja setja í kassann og gefa. Við gerum alls ekki ráð fyrir að fólk stökkvi út í búð og kaupi hitt og þetta heldur einmitt frekar að krakkarnir líti í kringum sig og sjái hvort að það sé eitthvað sem þau eru kannski hætt að nota eða eigi til aukalega.

img_8318-2

 

Gistinótt drekaskáta

Nú er fyrsti dagskráhringurinn að klárast en honum líkur með gistinótt í skátaheimilinu núna á föstudaginn. Þá ætlum við að skoða, smakka og sýna hvað við erum búin að vera að gera og er foreldrum boðið að koma og taka þátt í kvöldvöku og vígsluathöfn. Mæting fyrir skátana er kl. 18:30, södd og búin að borða kvöldmat en svo hefst kvöldvakan kl. 20:00.  Hér fyrir neðan er tímaplan og útbúnaðarlisti. Í skátaheimilinu eru dýnur en skátarnir koma sjálfir með svefnpoka eða sæng og kodda. Allir sem ætla að taka þátt í gistinóttinni á föstudaginn þurfa að vera skráðir í félagið, og er það er gert HÉR

Tímaplan & útbúnaðarlisti

14435053_10210848773274593_3299643126968305787_o

Fréttir af fálkum

Í dag fóru fálkaskátar í sveitinni Þórshamar í hjólaferð upp í Öskjuhlíð. Þar var sett upp siglína og fengu skátarnir að spreyta sig á því að síga niður klettana. Oft getur reynst erfitt að takast á við nýjar áskoranir, að treysta á ný tæki og tól en fyrst og fremst að treysta á sjálfan sig. Skátarnir stóðu sig allir með stakri prýði.

Í næstu viku verður svo hjólað niður í Nauthólsvík og tekist á við ný og krefjandi verkefni. Helgina 28. – 30. október fara fálkarnir í sveitarútilegu yfir heila helgi í skátaskálann Vífilsbúð í Heiðmörk. Það verður spennandi!

img_1775-2

Fréttir af drekum

Nú er fyrsti dagskráhringurinn í drekaskátunum hálfnaður. Skátarnir eru búnir að vera að semja og undirbúa skemmtiatriði, búa til ís, mála og leira hóp- og einstaklings einkenni. Á gistinóttinni 21. október verður svo uppskeruhátið með skátakvöldvöku & vígsluathöfn þar sem afraksturinn verður frumfluttur, sýndur og smakkaður.

nánar um drekaskáta hér: http://www.landnemi.is/starf/huginnmuninn/

0802

Skráning, árgjald & peysur

Nú eru liðnar þrjár vikur frá fyrsta fundi og gerum við því ráð fyrir að flestir séu búnir að gera upp hug sinn um hvort þeir ætli að starfa með okkur í vetur. Einfalt er að skrá skáta í félagið með hnappnum hér vinstra megin á síðunni. Í því ferli eru fylltar út greiðslu upplýsingar og er m.a. boðið uppá að fá greiðsluseðil í heimabanka og að greiða með frístundakortinu. Árgjaldið er 30.000 kr. og greiðist í tvennu lagi, 15.000 kr. fyrir og eftir áramót. Systkinaafsláttur er 20% fyrir þau systkini sem koma á eftir því fyrsta. Innifalið í árgjaldi er Landnema peysa en hana geta skátarnir nálgast á skrifstofunni okkar.img_8517-2

Útibíó dróttskátanna

í liðinni viku settu dróttskátar í Landnemum upp bíó úti í garði. Reistur var þrífótu, hengt á hann tjald og skjávarpa komið fyrir á pallinum. Dýnur, koddar og ullarteppi þöktu svæðið og einnig var poppvél frá skátalandi á svæðinu. Hvað ætli dróttskátarnir taki sér fyrir hendur næst?

14449045_1144395852306557_3367072241146446921_n

Breyttir drekaskátatímar

Nú hafa allar sveitir félagsins hist og fundað í vikunni sem er að líða. Eins og við mátti búast, fréttum við af einhverjum árekstrum á fundartímum og íþróttaæfingum og öðrum tómstundartímum og þurfum við því að gera örlitlar breytingar þannig að tíminn henti sem flestum. Það þýðir að drekskátafundirnir færast til kl. 18:30 á mánudögum. Við vonum innilega að þetta sé engum til ama. Aðrir fundir halda áður auglýstum tíma.

 • Huginn og Muninn, drekaskátar (8-9 ára): Mánudögum kl. 18:30 til 19:30
 • Þórshamar, fálkaskátar (10-12 ára): Mánudögum kl. 17:00 til 18:30
 • Víkingar, dróttskátar (13-15 ára): Þriðjudögum kl. 20:00 til 21:30

14311230_1133261596753316_4056174951481814678_o

Vetrarstarfið er byrjað!

Skátastarfið í Landnemum hefst af fullum krafti mánudaginn 12. september. Fundir vetrarins eru á mánu- og þriðjudögum:

 • Huginn og Muninn (8-9 ára): Mánudögum kl. 18:30 til 19:30
 • Þórshamar (10-12 ára): Mánudögum kl. 17:00 til 18:30
 • Víkingar (13-15 ára): Þriðjudögum kl. 20:00 til 21:30
 • RS Plútó í samstarfi við önnur félög í Rvk (16-18 ára): Fyrsti fundur sunnudaginn 18. sept. kl. 19:00. Sjá FB-viðburð. Fundartími vetrarins ákveðinn þar.

Öllum er velkomið að kíkja á fundi og prófa skátastarf núna í september. Við tökum vel á móti þér!

Allir skátar þurfa að endurnýja skráningu sína í félagið og nýjir félagar ap nýskrá sig. Við höfum tekið upp nýtt félagatal. Athugið að foreldrar þurfa fyrst að skrá sig inn í kerfið og síðan skrá börnin sín gegnum sinn aðgang. Ef þið lendið í vandræðum ekki hika við að senda okkur línu á landnemi@landnemi.is eða á facebook síðu Landnema.