Síðustu hringirnir í gang

Nú eru allar sveitir komnar af stað í síðustu dagskrárhringina og líður senn að lokum þessarar haustannar. Drekaskátar eru í útivistar dagskrá og eru þar meðal annars í útieldun & skyndihjálp, fálkaskátar vinna í flokksandanum, búa til flokkseinkenni og gerðu í dag piparkökuhús. Dróttskátar eru í handverks dagskráhring og ætla að smíða og mála allskonar sniðugt.

Síðustu fundir fyrir jól verða 12. og 13. desember. Foringjar hittast í hátíðarkvöldverði 16. desember og gera upp haustönnina. Starfið hefst svo að nýju á afmæli Landnema, sameiginlegum viðburði félagsins sem verður mánudaginn 9. janúar.

Gleðilega aðvenntu! sjáumst í jólafíling núna í desember.

img_9372-2

Hjarta, spaði, tígull, lauf

Drekaskátar hefja síðasta dagskrárhringinn þetta árið. Hann er með yfirskriftinni “Útivist” en skátarnir takast á við ýmis verkefni svo sem skyndihjálp, traustleiki, trönubyggingar og útieldun. Hópnum var skipt uppá nýtt í fjóra hópa; hjarta, spaða, tígul og lauf. Síðasti fundur fyrir jól er mánudaginn 12. desember og svo hefst starfið að nýju á afmælisdegi Landnema 9. janúar.

img_9283-2

Fáninn fangaður í félagsútilegu

Nú erum við komin heim úr félagsútilegunni sem var haldin í KSÚ á Úlfljótsvatni um helgina. Við vorum mjög heppin með veður en það var nánast logn alla helgina og 2-3 gráður og sól. Á laugardaginn var farið í hæk og leikurinn fangaðu fánann (capture the flag) var einnig gríðarlega vinsæll. Við eyddum seinni partinum í að búa til hnúta úr leðri og leir, semja, æfa og undirbúa skemmtiatriði og annað skemmtilegt. Um kvöldið var kvöldvaka, vígsluathöfn og loks næturleikur. Í dag vöknuðum við, héldum þrifakeppni Landnema og gengum að Ljósfossvirkjun þar sem við skoðuðum sýninguna Orka til framtíðar.

Vonum að allir hafi komið glaðir og þreyttir heim í dag og spenntir í að mæta á skátafundi á morgun!  Myndir frá útilegunni eru á facebook síðu Landnema!

img_9263

Hyvää päivää!! – góðan daginn!!

Í dag hringdu drekaskátar í jafnaldra sína í Finnlandi í gegnum Skype. Þar ræddu þau saman í máli og myndum um Finnland, Ísland, skátana, lífið & tilveruna. Fálkaskátar fóru í póstaleik á Klambratúni og fengust þar við blindrabraut, dulmál og hnúta. Á morgun fara dróttskátarnir í hellaferð í Hundraðmetrahelli í Helgardal undir leiðsögn Gísla Arnar Bragasonar, jarðfræðings og skáta.

Minnum á skráning í félagsútileguna sem fer fram um næstu helgi 18. – 20. nóvember. Skráningu líkur á miðvikudaginn 16. nóvember.  SKRÁNING HÉR
Nánari upplýsingar eru í færslunni hér fyrir neðan og ef það vakna einhverjar spurningar er hægt hafa samband við okkur á FACEBOOK eða á landnemi@landnemi.is

cam01385-768x1024-copy

 

Félagsútilega Landnema 18. – 20. nóvember

Félagsútilega Landnema verður haldin helgina 18. – 20. nóvember þar sem Landnemar á öllum aldri fara saman á Úlfljótvatn. Lagt verður af stað með rútu frá skátaheimilinu á föstudeginum um kl. 19:00 og heimakoma á sunnudeginum um kl. 16:00. Drekaskátar verða eina nótt, frá laugardegi til sunnudags. Þeir leggja af stað frá skátaheimilinu kl. 14:00 á laugardegi og koma heim á sama tíma og hinir á sunnudeginum kl. 16:00. Nauðsynlegt er að skrá skátana sem fyrst, en skráning fer fram hér. Allur matur er innifalinn ásamt gistingu, rútu og dagskrá. Gjaldið fyrir útileguna er 8.000 kr. fyrir fálka- og drótt- en 5.000 fyrir drekaskáta.

Við hlökkum til að sjá sem flesta á þessum stærsta og flottasta viðburði félagsins!

12657755_1011761668910509_7666729261095447719_o

 

23 kassar – nýtt met?

Á dróttskátafundi síðasliðið þriðjudagskvöld fóru dróttskátarnir í kassaklifur á planinu milli skátaheimilisins og MH. Margir spreyttu sig á þrautinni en enginn komst þó jafn hátt og Auður Eygló, sem fór upp 23 kassa. Óskum henni til hamingju! Á næsta fundi verður skorið út í grasker í tilefni af Hrekkjavökunni.

dsc08832-2

Gulur, grænn og appelsínugulur – nýr dagskráhringur dreka

Á morgun hefst næsti dagskráhringur drekaskáta, með yfirskriftinni „samfélagið/umhverfið“. Hópnum hefur verið skipt upp á nýtt, í gulan, grænan og appelsínugulan hóp. Í hringnum ætlum við m.a. að læra dulmál, skoða hvaðan pappír og plast kemur og af hverju við flokkum. Við ætlum líka að taka þátt í verkefninu Jól í skókassa sem er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn til þess að gleðja önnur börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Gjafirnar eru settar í skókassa og til þess að tryggja að öll börnin fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að ákveðnir hlutir séu í hverjum kassa.

  •  Leikföng, t.d. litla bíla, bolta, dúkku, bangsa eða jó-jó.
  • Skóladót, t.d. penna, blýanta, yddara, strokleður, skrifbækur, liti, litabækur eða vasareikni.
  • Hreinlætisvörur. tannbursta og tannkrem, sápustykki, greiðu, þvottapoka eða hárskraut.
  • Sælgæti, t.d. sleikjó, brjóstsykur, pez, tyggjó eða karamellur.
  • Föt, t.d. húfu, vettlinga, sokka, trefil, bol eða peysu.

Hver hópur setur saman einn eða tvo kassa og því þurfa allir að koma með aðeins 2-3 hluti sem þeir vilja setja í kassann og gefa. Við gerum alls ekki ráð fyrir að fólk stökkvi út í búð og kaupi hitt og þetta heldur einmitt frekar að krakkarnir líti í kringum sig og sjái hvort að það sé eitthvað sem þau eru kannski hætt að nota eða eigi til aukalega.

img_8318-2

 

Gistinótt drekaskáta

Nú er fyrsti dagskráhringurinn að klárast en honum líkur með gistinótt í skátaheimilinu núna á föstudaginn. Þá ætlum við að skoða, smakka og sýna hvað við erum búin að vera að gera og er foreldrum boðið að koma og taka þátt í kvöldvöku og vígsluathöfn. Mæting fyrir skátana er kl. 18:30, södd og búin að borða kvöldmat en svo hefst kvöldvakan kl. 20:00.  Hér fyrir neðan er tímaplan og útbúnaðarlisti. Í skátaheimilinu eru dýnur en skátarnir koma sjálfir með svefnpoka eða sæng og kodda. Allir sem ætla að taka þátt í gistinóttinni á föstudaginn þurfa að vera skráðir í félagið, og er það er gert HÉR

Tímaplan & útbúnaðarlisti

14435053_10210848773274593_3299643126968305787_o

Fréttir af fálkum

Í dag fóru fálkaskátar í sveitinni Þórshamar í hjólaferð upp í Öskjuhlíð. Þar var sett upp siglína og fengu skátarnir að spreyta sig á því að síga niður klettana. Oft getur reynst erfitt að takast á við nýjar áskoranir, að treysta á ný tæki og tól en fyrst og fremst að treysta á sjálfan sig. Skátarnir stóðu sig allir með stakri prýði.

Í næstu viku verður svo hjólað niður í Nauthólsvík og tekist á við ný og krefjandi verkefni. Helgina 28. – 30. október fara fálkarnir í sveitarútilegu yfir heila helgi í skátaskálann Vífilsbúð í Heiðmörk. Það verður spennandi!

img_1775-2

Fréttir af drekum

Nú er fyrsti dagskráhringurinn í drekaskátunum hálfnaður. Skátarnir eru búnir að vera að semja og undirbúa skemmtiatriði, búa til ís, mála og leira hóp- og einstaklings einkenni. Á gistinóttinni 21. október verður svo uppskeruhátið með skátakvöldvöku & vígsluathöfn þar sem afraksturinn verður frumfluttur, sýndur og smakkaður.

nánar um drekaskáta hér: http://www.landnemi.is/starf/huginnmuninn/

0802