Starfsár að hefjast

Háahlíð 9, félags- og skátaheimili Landnema lifnar við, starfið er að hefjast. Öll gerum við væntingar til vetrarins. Mörg andlit sjást frá síðasta ári og fyrri árum ásamt mörgum nýjum. Gott skátasumar að baki með Landnemamótið í Viðey og Alheimsmótið, Jamboree í Sviþjóð sem hápunkta.

Nýir krakkar eru velkomnir og auðvitað allir þeir sem áður voru í skátastarfinu. Stundum er sagt að í skátahreyfingunni séu ekki til varamannabekkir, skátahreyfingin sé þátttakendahreyfing, ekki áhorfendahreyfing. Allir krakkar finni sér farveg innan þeirra ramma sem settir eru.

Starfið er aldursskipt; 7 – 9 ára köllum við Drekaskáta, 10 – 12 ára eru Fálkaskátar, 13 – 15 eru Dróttskátar, 16 – 18 eru Rekkaskátar og Róverskátar eru svo 19 – 22 ára. Viðfangsefnin eru sniðin að ólíkum aldri.

Sjáið hér á heimasíðunni frekari upplýsingar um innritun og félagsgjald.