Gleðilegt sumar :)

Landnemar fögnuðu sumarkomunni með skemmtilegum hætti og byrjuðu snemma!
Að kvöldi síðasta vetrardags var gistinótt í skátaheimilinu í Háuhlíð. Var unað fram eftir kvöldi við leik, spil og sum jafnvel sjónvarpsgláp. Vöknuðu skátarnir hressir að morgni Sumardagsins fyrsta og var íslenski fáni var dreginn að húni í tilefni dagsins áður en haldið var í rútu í sumarfagnað skáta, skátamessuna í Hallgrímskirkju. Hana sóttu auk Landnema vinir okkar úr skátafélaginu Skjöldungum og fjöldi eldri skáta. Meðal þeirra voru Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson skáti úr Einherjum á Ísafirði og líka hér í Landnemum, Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og skáti frá Akranesi og svo margir fleiri góðir skátar og aðrir gestir sem hlýddu á fína ræðu Katrínar Jakobsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra. Þetta var flott athöfn.
En hátíðarhöldum dagsins var sko aldeilis ekki lokið. Eftir þetta var farið aftur í Hlíðina, þar sem hádegisverður beið skátanna. Seinna um daginn héldu þeir til síns heima. Róverskátarnir skelltu sér þó í nýstandsetta Laugardalslaugina og mættu svo galvaskir í  á Klambratúnið um kvöldið þar sem stjórn Skátasambands Reykjavíkur bauð eldri skátum úr skátafélögunum í Reykjavík og nágrenni í heilmikla grillveislu og grilluðu stjórnarmenn SSR um 200 hamborgara og annað eins af pylsum með allskonar meðlæti ofan í liðið. Á Klambratúninu var svo heilmikið skátaprell og að því loknu var haldið aftur í Hlíðina þar sem var spilað og sungið fram eftir kvöldinu
Góðum degi lokið og framundan er gott sumar með Landnemamótinu í Viðey og Landsmóti skáta á Úlfljótsvatni og allskonar útilífi.

Gestir í hátíðarmessu í Hallgrímskirkju

Ljósm. Sturla Bragason / birt m. leyfi.