Flokkakerfið – Flottasta skipulagið

Aukin áhersla er nú lögð á flokkakerfið í skátastarfi Landnema. 22. janúar var haldinn sérstakur fræðslufundur í Hlíðinni með foringjum Landnema og leiðbeinendum frá Fræðsluráði Bandalags íslenskra skáta. Flokkakerfið, upphaflega hugarfóstur Baden Powells hefur reynst í gegn um tíðina einn af hornsteinum skátastarfs. Flokkakerfið byggir í raun upp á formföstu hópastarfi jafningja, skátaflokknum þ.e. 5 – 8 einstaklingar í hóp með flokksforingjanum sem getur verið (en þarf þó ekki) dálítið eldri. Áherslan í starfinu liggi í rauninni á þessari einingu, skátaflokknum. 3 – 4 skátaflokkar mynda síðan skátasveitina sem er undir umsjón sveitarforingjans. Skátaflokkurinn þróast saman áfram í gegn um skátastarfið, – árum saman þegar vel tekst til. Oft myndast ævarandi vinahópur úr skátaflokknum.
Fræðslufundurinn stóð á 5. tíma og var afar vel heppnaður, bæði skemmtilegur og fróðlegur fyrir sveitar- og aðstoðarsveitarforingja sem aðra foringja í Landnemum. Þátttakendur létu vel af og ekki skemmdi fyrir að skátafélagið splæsti pizzu.
Á setningu fundarins kom í heimsókn hinn 52 ára gamli Æringjaflokkur, skátaflokkur stofnaður 1961 og þeir hafa bundist ævilöngum vinaböndum í gegn um skátaflokkinn sinn og hittast vikulega enn í dag. Vildu Æringjar með heimsókn sinni leggja þessu átaki Landnema lið.