Þrymheimur 70 ára!

Skátaskálinn Þrymheimur, vígður 23. mars 1943 hefur staðið keikur og brattur í 70 ár í austurhlíðum Skarðsmýrarfjalls, í Skarðsmýrinni sjálfri. Afmælinu var fagnað s.l. laugardag og stóðu Landnemar, eigendur skálans fyrir afmælisfagnaði í Þrym. Það var skátaflokkurinn Jukkarar og félagar þeirra í Skátafélagi Reykjavíkur sem reistu skálann 1943. Jukkarar báru nafn sitt af „jukkinu“ sem var réttur þeirra í útilegum, upphituð kássa með afgöngum, gjarnan kjöti ef til var!

Liðlega 70 manns lögðu leið sína á Hellisheiðina á afmælisdaginn, heimsóttu afmælisbarnið og rifjuðu upp minningar frá Heiðinni. Mættust þar margar kynslóðir skáta, – unga fólkið sem rekur skálann í dag sem fulltrúar þeirra sem voru virk á upphafsárunum eins og kvenskátarnir Guðrún Hjörleifsdóttir og Borghildur Fenger, báðar hátt á níræðisaldri. Voru 75 ár á milli yngsta gestsins og þess elsta. Nutu allir veðurblíðu, umhverfis og útsýnis og þáðu veitingar að hætti Þryms, heitt súkkulaði og auðvitað JUKK! Þetta var fallegur dagur.

Þúsundir skáta hafa gist Þrym í gegn um tíðina og gistinæturnar eru óteljandi.

Takk fyrir Þrym Jukkarar, – takk Þrymur sjálfur.
Áfram Þrymur. – Heill, gæfa, gengi!