Aðventufréttir

Nú líður senn að jólum. Talsvert er búið að bralla í Landnemum það sem af er vetri auk starfsins í Háuhlíðinni. M.a. má segja frá að dróttskátarnir gengu frá Hveragerði til Úlfljótsvatns í septemberlok, fóru í alvöru útilegu í Hrútey og gerðu sér síðan lítið fyrir og hjóluðu í bæinn. Vel heppnuð félagsútilega var farin í Skorradal í október, rekkaskátar fóru í bað í Hreppslaug, fálkaskátaútilega var haldin í Lækjarbotnum og drekaskátar gistu í Háuhlíðinni nú í nóvember.

Margt spennandi er framundan á komandi mánuðum. Fálkaskátarnir funda áfram í desember en drekaskátarnir ekki meira fyrir jól, nema jú auðvitað á jólafundinum 16. desember kl. 20 þar sem allir Landnemar mæta og fagna jólakomunni. Þar með lýkur hefðbundnu fundastarfinu fyrir jólin.

Starfið hefst síðan á nýju ári með afmælisfundinum 9. janúar. Þann dag halda Landnemar upp á 65 ára afmæli sitt með sterku útspili. Þá efnum við til skemmtiferðar „óvissuferðar“ fyrir skátana og fjölskyldur þeirra. Þetta verður með útivistar- og inniverublæ! sem meira verður sagt frá síðar. Eftir afmælisfundinn hefst sveitarstarfið á hefðbundnum tímum.

Að lokum nefnum við að 16. – 18. janúar er fyrirhugað Vetrarskátamót Reykjavíkurskáta að Úlfljótsvatni fyrir fálka-, drótt-, rekka- og eldri skáta og svo verður félagsútilega Landnema aftur um mánaðarmótin febrúar/mars.

Gleðileg jól!