Félagsútilega á Úlfljótsvatni

Félagsútilega Landnema var haldin helgina 20. til 22 nóvember. Haldið var í KSÚ-skálann við Úlfljótsvatn og var stór hópur skáta sem hélt austur. Hér að neðan er að finna skemmtilega ferðasögu nokkra fálkaskáta auk stuttrar frásagnar af ævintýrum dróttskátanna.

Við viljum nýta tækifærið og þakka öllum þeim sjálfboðaliðum sem komu að útilegunni fyrir góð störf. Þá sérstaklega þeim foreldrunum sem aðstoðuðu við eldamennsku.

Dróttskátadagskrá laugardagsins

Á laugardeginum fengu dróttskátarnir að velja á milli þess að fara í klifurturninn eða fjallgöngu. Fjórir dróttskátar fóru í klifurturninn og skemmtu sér við að æfa línuvinnu og síga. Restin af þeim fóru í fjallgöngu en hunsuðu ráð eldri skátanna og slepptu fjallinu! Í staðinn var stefnan tekin á róluna hinu megin við Úlfljósvatn. Eftir nokkrar klukkustundir barst skátunum í KSÚ-skálanum símtal. Þá var hópurinn kominn að rólunni og báðu um að hópurinn yrði sóttur á árabáti. Hugmyndinni var tekið vel en á endanum ákváðu dróttskátarnir að klára að ganga hringinn í kringum vatnið. Þeir komu örvinda til baka í langþráðan kvöldmáltíð.

Ferðasaga Hel

Við mættum á föstudagskvöldinu í skátaheimilið, pökkuðum í rútuna og lögðum af stað á Úlfljótsvatn.

Í rútunni var mikið fjör. Við komum á Úlfljótsvatn í myrkri og miklum snjó. Flokkarnir komu sér fyrir í KSÚ-skála og svo var kvöldkakó. Kakóið var einstaklega eftirminnilegt, við viljum hinsvegar ekki nefna hvers vegna. Eftir kvöldkaffi voru nokkrir skátar vígðir og svo var farið að sofa. Við héldum reyndar smá partý fyrir svefninn.

Við vöknuðum eldsnemma á laugardegi og byrjuðum daginn á skálaskoðun. Þar á eftir fórum við í fánaathöfn og morgunmat. Eftir morgunmat byrjaði söluleikur þar sem markmiðið var að hagnast á kaupum og sölu á hinu og þessu. Leikurinn byrjaði mjög skemmtilega en endaði eftir að óprúttnir aðilar náðu helming leikstjórnenda á sitt vald og frömdu bankarán. Í hádegismat var einstaklega góður grjónagrautur. Eftir hádegismat fórum við í póstaleik sem innihélt leðurvinnslu, leiklist og táknmál.

Í kvöldmatinn var kjúklingaréttur sem Aðalsteinn, pabbi Valda, eldaði. Maturinn var geðveikt góður og sumir vilja jafnvel meina að þetta hafi verið besti félagsútilegumatur sem smakkast hefur.  Eftir mat var kvöldvaka en Daníel Másson og Eiríkur Oddsson landnemar komu og spiluðu á gítar. Egle fór með kvöldvökustjórn og flokkar sýndu skemmtiatriði.

Eftir kvöldvöku var næturleikur í boði dróttskáta. Markmið leiksins var að finna Stefán dróttskáta sem var að fela sig. Stefán fannst aldrei. Djók. Samt ekki.

Dagurinn endaði á smá partí og svo svefn.

Á sunnudeginum var þrifakeppnin ógurlega háð en Hel fór með sigur af hólmi. Dagskráverðlaun fyrir helgina voru svo veitt en Hel fékk þau einnig. Rútuferðin var skemmtileg og virtist taka einstaklega stutta stund, jafnvel bara fimm mínútur.

Í heildina litið var útilegan algjört partý.

Takk fyrir okkur,

Skátaflokkurinn Hel

Kristín, Sandra, Stephanie, Elsa og Hildur (11 og 12 ára)

12283217_946606765386937_557924185_n