Sumarstarf

Drekaskátamót

Drekaskátamót verður haldið 5.-6. júní á Úlfljótsvatni þar sem er spennandi aðstaða til leikja og ýmsir dagskrármöguleikar í boði. Mótið er fyrir alla drekaskáta (f. 2011-2013) á landinu og þátttakendur mótsins koma því héðan og þaðan af landinu og frá mörgum skátafélögum. Þema mótsins er “Með sól í hjarta”. Við förum með rútu á mótið og gistum í tjöldum og á dagskránni er t.d. klifur, bátar, vatnasafarí, bogfimi og kvöldvaka. 

 

Landnemar útvega tjöld en skátarnir þurfa að koma með annan búnað. Útbúnaðarlista má sjá hér.


Mótsgjaldið er 5.900 kr. en í því er innifalin öll dagskrá, drekaskátamótsbolur og kvöldmatur og kvöldhressing á laugardagskvöldi. Annan mat þurfa börnin að koma með með sér, þ.e.:

-Hádegismat á laugardegi

-Kaffihressingu á laugardegi

-Morgunmat á sunnudegi

-Hádegismat á sunnudegi

 

Skráning fer fram á skatar.felog.is og er skráningarfrestur til 27. maí. Skátasamband Reykjavíkur sér um rútukostnað þannig að ekkert gjald leggst ofan á mótsgjaldið. Nánari upplýsingar um brottfarartíma koma þegar nær dregur.

 

Mótsstjórn drekaskátamóts hefur gefið út tvær varaáætlanir vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Hér eru plönin:

Plan A: Eins og lýst er hér að ofan.

Plan B: Mótinu yrði breytt í dagsferð á Úlfljótsvatni og því yrði ekki gist en skátarnir myndu fá að prófa að fara í klifurturn, bogfimi, báta, vatnasafarí og fleira sem boðið er upp á á venjulegu Drekaskátamóti. Helmingur skátafélaganna myndi koma á laugardegi en hinn helmingurinn myndi koma á sunnudeginum.

Plan C: Mótsstjórnin myndi senda hugmyndir að drekaskátamótsdagskrá og drekaskátamótsboli heim í skátafélögin sem skátafélögin geta nýtt til að halda útilegu eða drekaskátadag heima í félögunum einhvern tímann í sumar þegar aðstæður leyfa.

Landnemamót

Landnemamót verður haldið 12.-13. júní við Hvaleyrarvatn. Þetta er félagsútilega þar sem allir skátar í Landnemum koma saman. Gist verður í tjöldum og fá skátarnir að upplifa ýmis ævintýri í þessari útilegu. Landnemar munu útvega tjöld, mat og dagskrárefni. Þátttakendur þurfa að koma með annan útbúnað, sjá tillögu að útbúnaðarlista hér

Mæting er við Skátalund (kort) kl. 10:00 þann 12. júní. Við hvetjum skátana til þess að sameinast í bíla. Skátarnir skulu vera sóttir á sama stað kl. 14:00 þann 13. júní. 

 

Skráning fer fram á Sportabler og er frítt á mótið fyrir þá sem hafa greitt félagsgjald 2020-2021. Þessi útilega er frábær vettvangur fyrir þá sem eru að fara á Skátasumarið til þess að æfa sig að gista í tjaldi og fara í útilegu. Við hlökkum til að fá loksins að fara í útilegu með þessum flottu skátum! 

 

Skátalundur er skátaskáli eldri skáta í Hafnarfirði sem hafa útbúið útivistarparadís. Við skálann eru flatir þar sem skátar geta farið í útilegur, bálstæði og skógarrjóður og því hentugur fyrir flokka- og sveitarútilegur. Hægt er að finna frekari upplýsingar um svæðið hér.

 

Útilegan er skipulögð með þeim fyrirvara að samkomutakmarkanir séu í lagi og hafi ekki áhrif á útileguna. Einnig erum við meðvituð um hættu af gróðureldum og munum skoða stöðuna þegar nær dregur.

 

Skátasumarið

Skátasumarið er skátamót fyrir drekaskáta og eldri og verður haldið á Úlfljótsvatni. Landsmóti skáta 2020 var aflýst vegna COVID-19 og þetta mót kemur í stað þess.

 

Gjaldið sem þarf að greiða fyrir mótið er 39.000 kr. en innifalið í því er gistiaðstaða, dagskrá, matur og einkenni. Það gæti þó verið að eitthvað gjald leggist ofan á mótsgjaldið vegna sameiginlegs búnaðar Landnema og rútu. Systkinaafsláttur af mótsgjaldinu er 25% og er veittur af þátttökugjöldum vegna þáttöku barna umfram eitt. 


Frekari upplýsingar koma von bráðar! Hægt er að skoða nánari upplýsingar um mótið á heimasíðu mótsins http://skatamot.is/.