Vetrarstarfið er byrjað!

Skátastarfið í Landnemum hefst af fullum krafti mánudaginn 12. september. Fundir vetrarins eru á mánu- og þriðjudögum:

 • Huginn og Muninn (8-9 ára): Mánudögum kl. 18:30 til 19:30
 • Þórshamar (10-12 ára): Mánudögum kl. 17:00 til 18:30
 • Víkingar (13-15 ára): Þriðjudögum kl. 20:00 til 21:30
 • RS Plútó í samstarfi við önnur félög í Rvk (16-18 ára): Fyrsti fundur sunnudaginn 18. sept. kl. 19:00. Sjá FB-viðburð. Fundartími vetrarins ákveðinn þar.

Öllum er velkomið að kíkja á fundi og prófa skátastarf núna í september. Við tökum vel á móti þér!

Allir skátar þurfa að endurnýja skráningu sína í félagið og nýjir félagar ap nýskrá sig. Við höfum tekið upp nýtt félagatal. Athugið að foreldrar þurfa fyrst að skrá sig inn í kerfið og síðan skrá börnin sín gegnum sinn aðgang. Ef þið lendið í vandræðum ekki hika við að senda okkur línu á landnemi@landnemi.is eða á facebook síðu Landnema.

Vetrarstarfið framundan

Nú er að styttast í góðu sumri, þar sem Landnemar voru á ferði og flugi. – Félagið stóð m.a. fyrir öflugu skátamóti í júní s.l., Landnemamótinu í Viðey og tók jafnframt þátt í Landsmóti skáta að Úlfljótsvatni í júlí en þar var mikið fjör. Nú stendur yfir undirbúningur fyrir vetrarstarf Landnema, niðurröðun funda, viðburða og viðfangsefna. Ekki síður mönnun í störf skátaforingja og leiðbeinenda. Síðar verður tilkynnt um nánari tilhögun þessa. Vinsamlegast athugið að upplýsingar um fundartíma o.þ.h. hér á heimasíðunni eru fyrir síðasta vetur. Nýjar upplýsingar eru væntanlegar 5.9.

Laugardaginn 3. september milli kl. 14 og 17 verður innritunar- og upplýsingadagur Landnema í skátaheimilinu að Háuhlíð 9. – Verið velkomin.

12969305_10154830166949126_1435566613_n

Uppskeruhátíð í Háuhlíðinni

Við viljum bjóða áhugasömum Landnemum, öllum þeim krökkum sem komu í Útilífsskólann og foreldrum þeirra að koma og fagna með okkur vel heppnuðu skátasumri. Á sunnudaginn kl 13-15 verðum við með Uppskeruhátíð í Háuhlíð 9 þar sem við munum grilla pylsur, fara í leiki og gleðjast saman. Kaffi verður í boði fyrir fullorðna fólkið og auðvitað er það líka velkomið að vera með í leikjunum. Einnig munum við kynna vetrarstarfið okkar og það sem framundan er á komandi skátaári.

Aðalfundur Landnema

Fundurinn verður haldinn í skátaheimili Landnema, Háuhlíð 9, miðvikudaginn 24. febrúar 2016 og hefst hann kl. 20:00.

Dagskrá fundarins er:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 2. Skýrsla stjórnar og umræður um hana.
 3. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til umræðu og samþykktar.
 4. Fulltrúi stjórnar SSL gerir lauslega grein fyrir starfi og fjárhagsstöðu SSL.
 5. Lagabreytingar.
 6. Kosning félagsforingja.
 7. Kosning fjögurra skáta í stjórn félagsins.
 8. Kosning eins skoðunarmanns reikninga.
 9. Önnur mál.

Stjórn hefur ekki borist tillaga um breytingu á lögum félagsins. Lög félagsins má skoða HÉR.

Á fundinum verður kosið í stjórn félagsins. Leit stendur yfir af áhugasömu fólki. Ef foreldrar barna í félaginu hafa áhuga á að sitja í stjórn og hafa spurningar vegna þess er hægt að hafa samband gegnum netfangið landnemi@landnemi.is.

Félagsútilega á Úlfljótsvatni

Félagsútilega Landnema var haldin helgina 20. til 22 nóvember. Haldið var í KSÚ-skálann við Úlfljótsvatn og var stór hópur skáta sem hélt austur. Hér að neðan er að finna skemmtilega ferðasögu nokkra fálkaskáta auk stuttrar frásagnar af ævintýrum dróttskátanna.

Við viljum nýta tækifærið og þakka öllum þeim sjálfboðaliðum sem komu að útilegunni fyrir góð störf. Þá sérstaklega þeim foreldrunum sem aðstoðuðu við eldamennsku.

Dróttskátadagskrá laugardagsins

Á laugardeginum fengu dróttskátarnir að velja á milli þess að fara í klifurturninn eða fjallgöngu. Fjórir dróttskátar fóru í klifurturninn og skemmtu sér við að æfa línuvinnu og síga. Restin af þeim fóru í fjallgöngu en hunsuðu ráð eldri skátanna og slepptu fjallinu! Í staðinn var stefnan tekin á róluna hinu megin við Úlfljósvatn. Eftir nokkrar klukkustundir barst skátunum í KSÚ-skálanum símtal. Þá var hópurinn kominn að rólunni og báðu um að hópurinn yrði sóttur á árabáti. Hugmyndinni var tekið vel en á endanum ákváðu dróttskátarnir að klára að ganga hringinn í kringum vatnið. Þeir komu örvinda til baka í langþráðan kvöldmáltíð.

Ferðasaga Hel

Við mættum á föstudagskvöldinu í skátaheimilið, pökkuðum í rútuna og lögðum af stað á Úlfljótsvatn.

Í rútunni var mikið fjör. Við komum á Úlfljótsvatn í myrkri og miklum snjó. Flokkarnir komu sér fyrir í KSÚ-skála og svo var kvöldkakó. Kakóið var einstaklega eftirminnilegt, við viljum hinsvegar ekki nefna hvers vegna. Eftir kvöldkaffi voru nokkrir skátar vígðir og svo var farið að sofa. Við héldum reyndar smá partý fyrir svefninn.

Við vöknuðum eldsnemma á laugardegi og byrjuðum daginn á skálaskoðun. Þar á eftir fórum við í fánaathöfn og morgunmat. Eftir morgunmat byrjaði söluleikur þar sem markmiðið var að hagnast á kaupum og sölu á hinu og þessu. Leikurinn byrjaði mjög skemmtilega en endaði eftir að óprúttnir aðilar náðu helming leikstjórnenda á sitt vald og frömdu bankarán. Í hádegismat var einstaklega góður grjónagrautur. Eftir hádegismat fórum við í póstaleik sem innihélt leðurvinnslu, leiklist og táknmál.

Í kvöldmatinn var kjúklingaréttur sem Aðalsteinn, pabbi Valda, eldaði. Maturinn var geðveikt góður og sumir vilja jafnvel meina að þetta hafi verið besti félagsútilegumatur sem smakkast hefur.  Eftir mat var kvöldvaka en Daníel Másson og Eiríkur Oddsson landnemar komu og spiluðu á gítar. Egle fór með kvöldvökustjórn og flokkar sýndu skemmtiatriði.

Eftir kvöldvöku var næturleikur í boði dróttskáta. Markmið leiksins var að finna Stefán dróttskáta sem var að fela sig. Stefán fannst aldrei. Djók. Samt ekki.

Dagurinn endaði á smá partí og svo svefn.

Á sunnudeginum var þrifakeppnin ógurlega háð en Hel fór með sigur af hólmi. Dagskráverðlaun fyrir helgina voru svo veitt en Hel fékk þau einnig. Rútuferðin var skemmtileg og virtist taka einstaklega stutta stund, jafnvel bara fimm mínútur.

Í heildina litið var útilegan algjört partý.

Takk fyrir okkur,

Skátaflokkurinn Hel

Kristín, Sandra, Stephanie, Elsa og Hildur (11 og 12 ára)

12283217_946606765386937_557924185_n

Félagsútilegan

Gagnlegar viðbótarupplýsingar

1. Gætið að klæðnaði skátanna, öll þurfa að vera vel klædd eftir veðri því dagskráin fer fram utandyra að miklu leyti. Minnið börnin svo á að gæta vel að fötunum og ekki týna eða gleyma – Hver ber ábyrgð á eigin fötum.
2. Skátarnir mæti með skátabúning eða skátapeysu og beri skátaklútinn. Athugið að vígsla fer fram á föstudagskvöld en þá fá nýliðar skátaklútinn sinn.
3. Við mætingu á föstudag kl. 18 séu öll vel nærð og vel haldin því við verðum ekki með kvöldmat. Hinsvegar verður boðið upp á kvöldhressingu seinna um kvöldið.
4. Munið: Brottför kl. 18 á föstudagskvöld.

Félagsútilega á Sólheimum

Helgina 26. til 28. október verður félagsútilega Landnema haldin og að þessu sinnu verður hún á Sólheimum í Grímsnesi.  Útilegan er fyrir fálkaskáta og eldri en drekaskátarnir munu koma með á Úlfljótsvatn eftir áramót. Skátarnir eiga að mæta í skátaheimilið klukkan 18:00 á föstudaginn og heimkoma er áætluð klukkan 16:00 á sunnudaginn. Þátttökugjaldið er 5.000 kr og innifalið í því er öll dagskrá, matur, gisting og rútuferð. Hægt verður að greiða í skátaheimilinu fyrir brottför en einnig er hægt að ganga frá greiðslunni með millifærslu.* Útbúnaðarlista fyrir útileguna er að finna á heimasíðu félagsins: HÉR. Skátarnir skrá sig í útileguna með því að láta sveitarforingjana sína vita á fundunum í vikunni.

 

* Kennitala: 491281-0659, Reikningsnúmer: 0111-26-510091, Skýring: Nafn skáta, félagsútil, Senda kvittun á landnemi@landnemi.is

Drekaskátar stíga fyrstu sporin

14 nýir Drekaskátar voru vígðir í Landnemaheimilinu 16. október s.l. og hófu þar með skátagöngu sína. Þetta var skemmtileg og hátíðleg stund. Foreldrar og aðrir gestir voru líka viðstaddir athöfnina, skoðuðu skátaheimilið, fengu kakó og fræddust um starfið.

– Og allir hrópuðu Landnemahrópið, – Heill, gæfa, gengi, – Landnemar lifi lengi.

Til hamingju Drekaskátar, verið velkomin!

 

 

Nýtt og spennandi starfsár

Skátastarfið í Landnemum er hafið. Nú þarf að innrita alla sem hyggjast vera með í starfinu, jafnt nýja sem þá sem hafa verið með áður. Skráning fer fram hér á heimasíðunni, sjá tengilinn hér að neðan, SKRÁ MIG. Þar er óskað eftir upplýsingum um skátann og greiðslu gjaldsins. Vinsamlega fyllið nákvæmlega út. Mikilvægt er að skráning fari fram sem fyrst. Allar frekari upplýsingar eru hér á heimasíðunni.