Pollanámskeið útilífsskólans

Útilífsskólinn býður upp á eitt pollanámskeið fyrir 5 og 6 ára í sumar vikuna 27. – 31. júlí.

Námskeiðið er ekki jafn krefjandi og þau sem eru fyrir eldri krakkana en við förum mikið út og þetta verður rosalega gaman!

Skráning fer fram inn á: https://sportabler.com/shop/landnemar

Ef einhverjar spurningar vakna ekki hika við að hafa á facebook https://www.facebook.com/Landnemi eða með því að senda okkur línu á utilifsskoli@landnemi.is.

Við minnum líka á að það eru ennþá laus pláss á námskeið fyrir 8-12 ára í júlí!

Foringjaferð

Foringjahópur Landnema hélt í ævintýraferð um síðustu helgi í boði Landnema sem þakklætisvott fyrir óeigingjörn sjálfboðaliðastörf síðastliðinn vetur en allir foringjar Landnema starfa sem sjálfboðaliðar. Ferðinni var heitið á suðurlandið þar sem margar helstu náttúruperlur við þjóðveginn voru skoðaðar í óvenjulegu fámenni. Gist var í Skaftafelli þar sem gengið var á Svínafellsjökul og upp að Svartafossi. Frábær ferð í alla staði með frábæru fólki!

Sumarstarf

Í júní verður opið hús fyrir alla skáta félagsins á þriðjudögum milli klukkan 17:30 og 19. Upplýsingar um dagskrá hvers fundar verða sendar í gegnum Sportabler.

Sunnudaginn 14. júní verður dagsferð fyrir alla skáta félagsins og helgina 3. – 5. júlí förum við í útilegu á Úlfljótsvatn.

Landsmót skáta – foreldrafundur

Foreldrafundur vegna Landsmóts skáta verður í skátaheimilinu

Mánudaginn 10. febrúar klukkan 20

Landsmót skáta fer fram 8. – 14. júlí næstkomandi að Hömrum á Akureyri. Þangað fjölmenna Landnemar eins og aðrir skátar innlendir og erlendir. Mótið er fyrir alla skáta fædda 2012 og fyrr og er drekaskátum nú í fyrsta skipti boðið að taka fullan þátt í mótinu. Heimasíða mótsins er www.skatamot.is

Á fundinum verður farið yfir fyrirkomulag mótsins, skráningu, verð, fjölskyldubúðir, fjáraflanir og annað. Rétt er að taka fram að börnin eru á ábyrgð foringja skátafélagsins á meðan á mótinu stendur og því er ekki þörf á því að foreldrar fylgi börnum sínum á mótið. Hins vegar eru starfræktar sérstakar fjölskyldubúðir þar sem foreldrar og systkini geta komið og dvalið um lengri eða skemmri tíma og tekið þátt í dagskrá mótsins.

Einnig óskum við eftir foreldrum sem eru tilbúnir að ganga til liðs við foringja félagsins í fararstjórn á mótið. Verkefni fararstjórnar eru meðal annars að halda utan um fjáraflanir fyrir mótið, undirbúa og pakka búnaði félagsins, reisa tjaldbúð, sjá um velferð skátanna á mótinu og skipuleggja matseld auk þess að sinna frágangi eftir mótið. Mögulegt er að taka að sér ákveðin takmörkuð verkefni.

Vonumst til að sjá sem flesta!

Skátamót

70 ára afmæli Landnema

Öllum Landnemum, fjölskyldum þeirra og velunnurum er boðið í 70 ára afmæli Landnema 9. janúar milli klukkan 17 og 19 í skátaheimilinu. Boðið verður upp á afmælisratleik og afmælisveitingar. (Ratleikurinn verður að hluta úti á lóð skátaheimilisins – og því gott að koma með útiföt.)

Jólafundur, jólafrí og afmælisár

Jólafundur Landnema verður þriðjudaginn 17. desember milli 17:30 og 18:30. Þangað er öllum skátum félagsins boðið og er það jafnframt síðasti fundur fyrir jól.

Nýtt ár hefst svo með opnu húsi fyrir alla skáta þriðjudaginn 7. janúar milli klukkan 17 og 19 þar sem 70 ára afmæli Landnema verður undirbúið.

Fimmtudagurinn 9. janúar er afmælisdagur Landnema og að þessu sinni fagnar félagið 70 árum. Afmælisfagnaður verður í skátaheimilinu milli 17 og 19 og boðið verður upp á afmælisratleik og afmælisveitingar. Skátum í félaginu og fjölskyldum þeirra er boðið að samfagna með okkur.

Takk fyrir samstarfið á árinu!

Við óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári!

Félagsútilega í kvöld!

Við hlökkum til að sjá ykkur í félagsútilegu í kvöld!
Vegna vindaspár í kvöld er rétt að taka fram að mæting er í Háuhlíðina klukkan 19:30. Ef til þess kæmi að mat okkar í samstarfi við bílstjóra hópferðarfyrirtækisins væri að ekki sé óhætt að keyra Kjalarnesið í kvöld þá verður gist í skátaheimilinu í nótt og haldið í Skorradal í fyrramálið.