Lög félagsins

Kafli A – Heiti félagsins, starfssvæði og markmið

 1. grein – Nafn og starfssvæði

Félagið heitir Skátafélagið Landnemar.

Heimili þess og starfssvæði er í Reykjavík, eftir nánari ákvörðun Skátasambands Reykjavíkur.

 1. grein – Aðild að samtökum

Félagið er aðili að Bandalagi íslenskra skáta og Skátasambandi Reykjavíkur og starfar eftir lögum þeirra.

 1. grein – Markmið og leiðir

Markmið félagsins er að þroska börn og ungt fólk til að verða ábyrgir, sjálfstæðir og virkir einstaklingar í þjóðfélaginu. Markmiðum sínum hyggst félagið ná meðal annars með:

 • Hópvinnu til að þroska tillitssemi, samstarfshæfileika, ábyrgð og stjórnunarhæfileika.
 • Útilífi til að efla líkamsþrek og vekja áhuga á náttúrunni og löngun til að vernda hana.
 • Viðfangsefnum af ýmsu tagi til að kenna skátum margvísleg nytsöm störf, sjálfum þeim og öðrum til heilla.
 • Þátttöku í alþjóðastarfi skátahreyfingarinnar til að gefa skátum tækifæri til að kynnast ungu fólki frá öðrum löndum, háttum þess og menningu.

Kafli B – Félagsaðild og skyldur

 1. grein – Aðild og skyldur félaga

Til að gerast félagi þarf viðkomandi að vera á öðru grunnskólaári við innritun eða eldri. Leyfi foreldris eða forráðamanns þarf sé viðkomandi ekki sjálfráða.

Hver og einn telst félagi ef félagsstjórn eða fulltrúi hennar hefur samþykkt inntökubeiðni hans, skráð hann í félagatal og tekið við greiðslu árgjalds.

Félagi sem ekki stendur skil á árgjaldi til félagsins er ekki fullgildur félagi.

Gerist félagi brotlegur við lög þessi eða spillir áliti félagsins að mati félagsstjórnar getur hann sætt brottrekstri úr félaginu. Skal þá félagsstjórn tilkynna viðkomandi það skriflega.

Kafli C– Stjórnun félagsins

 1. grein – Aðalfundur

Aðalfundur fer með æðstu stjórn í málefnum skátafélagsins Landnema. Aðalfundur félagsins skal haldinn í febrúarmánuði ár hvert. Rétt til setu á aðalfundi hafa:

Með atkvæðisrétti:

 • Allir fullgildir félagar sem verða 15 ára á árinu og eldri.
 • Stjórn Sjálfseignar­stofnunar­innar skátaheimili Landnema (SSL).

Án atkvæðisréttar, með málfrelsi og tillögurétt:

 • Allir fullgildir félagar í skátafélaginu Landnemum og félagar SSL.
 • Fulltrúar stjórna BÍS og SSR.
 • Sérstakir boðsgestir stjórnar.

 

 1. grein – Boðun aðalfundar

Aðalfundur skal boðaður skriflega með minnst tveggja vikna fyrirvara til atkvæðisbærra manna og telst tölvupóstur gilt fundarboð til þeirra sem hafa netföng. Á sama tíma skal tilkynnt um fundinn skriflega í skátaheimili Landnema. Stjórn SSL er ábyrg fyrir tilkynningu um fundinn til félaga í SSL. Stjórnum BÍS og SSR skal tilkynnt um fundinn með tölvupósti með a.m.k. 2ja vikna fyrirvara. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.

 1. grein – Verkefni aðalfundar

Verkefni aðalfundar eru:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 2. Skýrsla stjórnar og umræður um hana.
 3. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til umræðu og samþykktar.
 4. Fulltrúi stjórnar SSL gerir lauslega grein fyrir starfi og fjárhagsstöðu SSL.
 5. Lagabreytingar.
 6. Kosning félagsforingja.
 7. Kosning fjögurra skáta í stjórn félagsins.
 8. Kosning eins mann í uppstillinganefnd.
 9. Kosning eins skoðunarmanns reikninga.
 10. Önnur mál.

Lög þessi, sem og lög SSL skulu liggja frammi á aðalfundi.

 1. grein – Stjórn

Stjórn félagsins skal skipuð fimm skátum; félagsforingja, aðstoðarfélagsforingja, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda. Félagsforingi skal uppfylla kröfur Bandalags íslenskra skáta um hæfi til starfans. Gjaldkeri félagsins skal vera fjárráða. Stjórnin er kosin til eins árs í senn.

Stjórn félagsins heldur fundi þegar þurfa þykir. Einu sinni í mánuði hið minnsta, nema yfir sumarmánuðina.

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar skal haldinn innan tveggja vikna frá aðalfundi.

Skoðunarmenn reikninga eru tveir, annar kosinn á aðalfundi til eins árs í senn, en hinn er gjaldkeri Skátasambands Reykjavíkur.

 1. grein – Verkaskipting stjórnar

Félagsforingi:

 • Er fulltrúi félagsins út á við.
 • Boðar og stjórnar fundum félagsstjórnar og félagsráðs.
 • Fylgir eftir ákvörðunum aðalfunda, foringjaráðsfunda og stjórnarfunda.
 • Skipar foringja og embættismenn félagsins í samráði við aðstoðarfélagsforingja.
 • Sér um viðurkenningamál félagsins.
 • Útbýr erindisbréf til starfshópa eftir þörfum hverju sinni.
 • Gerir ráðningarsamninga við starfsmenn félagsins í samræmi við ákvörðun stjórnar.
 • Er tengiliður stjórnar við starfsmenn félagsins.

Aðstoðarfélagsforingi:

 • Sér um rekstur og skipulagningu félagsstarfsins og hefur reglubundið eftirlit með skáta­starfinu í félaginu.
 • Boðar og stjórnar foringjaráðsfundum félagsins.
 • Heldur utan um dagskrá félagsins.
 • Hefur umsjón með því að atburðir félagsins séu undirbúnir og auglýstir tímanlega.
 • Hefur umsjón með nýliðun og þjálfun foringja félagsins.
 • Sér um samskipti við foreldra í samráði við skátaforingja.
 • Aðstoðarfélagsforingi gegnir störfum félagsforingja í forföllum hans.

Gjaldkeri:

 • Varðveitir félagssjóð og annast greiðslu reikninga.
 • Sér um öll fjármál félagsins og hefur eftirlit með sjóðum félagsins, smærri sem stærri.
 • Annast umsjón með tryggingum félagsins og eigum þess.
 • Annast samskipti við bókara og skoðunarmenn reikninga.
 • Heldur utan um fjármál tengd fjáröflunum skátanna í félaginu.

Ritari:

 • Skal halda gjörðabók um alla félagsstjórnarfundi og merka atburði í sögu félagsins.
 • Skal varðveita allar útfylltar fundargerðabækur úr félaginu, t.d. flokka- og sveitabækur.
 • Annast bréfaskriftir fyrir félagið.
 • Sér til þess að fundargerðir stjórnar- og foringjaráðsfundar séu ritaðar og ber ábyrgð á varðveislu þeirra og gerir þær aðgengilegar á vefnum eftir nánari ákvörðun stjórnar.
 • Hefur umsjón með bókasafni félagsins.
 • Hefur umsjón með nýliðun og þjálfun sjálfboðaliða félagsins sem gegna öðrum störfum en foringjastörfum.
 • Situr foringjaráðsfundi.

Meðstjórnandi:

 • Hefur umsjón með skátaheimili félagsins, þ.m.t. þrifum og viðhaldi.
 • Hefur aðalumsjón með skála(um) félagsins og er tengiliður við skálastjórn.
 • Hefur yfirumsjón með öllum búnaði félagsins. Gildir það um viðlegubúnað, dagskrárbúnað sem og allan búnað í skátaheimilinu.
 • Hefur umsjón með geymslum, smiðjum og flutningatækjum félagsins.
 • Heldur utan um reglur varðandi búnað og notkun hans. Einnig um umgengni í smiðju og geymslum.
 • Er fulltrúi stjórnar Landnema í stjórn Sjálfseignarstofnunarinnar Skátaheimili Landnema (SSL).
 • Sér um að taka upp mál sem varðar báðar stjórnir og veita upplýsingar eftir því sem þarf til að greiða fyrir samskiptum stjórnanna.

Sameiginlega ber stjórn ábyrgð á stefnumótun félagsins, fjárreiðum, mannauði og uppbygginu aðstöðu fyrir félagið. Einnig upplýsingagjöf innan og utan félagsins, samstarfi við önnur félög og samtök, félagatali o.fl.

Stjórn félagsins er heimilt að setja reglugerðir um einstaka þætti félagsstarfsins, t.d. fjármál, blaðaútgáfu, skemmtanahald, skálaferðir o.þ.h. Um slíkar reglugerður skal fjallað á aðalfundi og þær staðfestar.

 1. grein Uppstillinganefnd

Verkefni Uppstillinganefndar er að tryggja að stillt sé upp í þau embætti sem kjósa skal á aðalfundi. Í uppstillinganefnd sitja þrír einstaklingar, einn tilnefndur af stjórn félagsins, annar af foringjaráði félagsins og sá þriðji kosinn á aðalfundi. Tilnefningar skulu liggja fyrir á aðalfundi. Uppstillinganefnd skili niðurstöðum sínum til stjórnar félagsins 3 vikum fyrir aðalfund.

 

 1. grein – Viðbrögð við ófyrirséðum starfslokum

Hætti stjórnarmaður störfum einhvern tíma milli aðalfunda kýs foringjaráð félagsins að fengnum tillögum stjórnar annan í hans stað til bráðabirgða fram að næsta aðalfundi.

 1. grein –  Starfsmenn

Stjórn félagsins er heimilt að ráða starfsmann, einn eða fleiri. Hún ákveður starfssvið og starfskjör.

 1. grein – Félagsráð

Í félaginu starfar félagsráð sem í eiga sæti félagsstjórn og allir foringjar félagsins, aðstoðarsveitarforingjar og æðri. Félagsráð heldur fundi a.m.k. tvisvar sinnum á ári. Félagsráð skipuleggur starfs félagsins og ákveður árgjald þess. Félagsforingi stjórnar fundum félagsráðs.

 1. grein – Foringjaráð

Í félaginu starfar foringjaráð sem í eiga sæti aðstoðarfélagsforingi og allir foringjar félagsins, aðstoðarsveitarforingjar og æðri. Foringjaráð heldur fundi einu sinni í mánuði að jafnaði nema sumarmánuðina og þá mánuði sem félagsráð hittist. Foringjaráð er samstarfs- og stuðningsvettvangur foringja félagsins og annast nánari útfærslu á dagskrárliðum. Aðstoðarfélagsforingi stjórnar fundum foringjaráðs.

Kafli D – Önnur ákvæði

 1. grein – Slit á félaginu

Hætti félagið störfum, skal Sjálfseignarstofnuninni skátaheimili Landnema (SSL) falin umsjá eigna þess, þar til það hefur störf á ný. Leggist  starfsemi beggja félaganna niður, skal Skátasambandi Reykjavíkur falin umsjá eignanna. Skulu þær þá notaðar til heilbrigðrar æskulýðstarfsemi í samráði við stjórn Bandalags íslenskra skáta þar til skátastarf verður endurvakið á starfssvæðinu.

 1. grein –  Lagabreytingar

Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi. Tillögur um lagabreytingar skulu berast stjórn félagsins fyrir 15. janúar ár hvert og skulu birtar í fundarboði. Lögum þessum verður aðeins breytt ef tveir þriðju hlutar kosningarbærra fundarmanna greiða atkvæði með lagabreytingartillögum. Ákvörðun um slit á félaginu tekur ekki gildi nema fimm sjöttu hlutar kosningarbærra fundarmanna greiði atkvæði með slitum félagsins.

Þannig samþykkt á aðalfundi 19.2. 2020