Stefna

Hlutverk skátafélagsins Landnema

Hlutverk skátafélagsins Landnema er skilgreint í lögum BÍS. Skátafélagið starfar í Reykjavík og er starfssvæðið skilgreint nánar af Skátasambandi Reykjavíkur, SSR. Skátafélagið er fyrir börn og ungt fólk frá aldrinum 8 til 22 ára. Félagið leitast við að þroska börn og ungt fólk til sjálfstæðis og hjálpa þeim að verða virkir og ábyrgir einstaklingar í samfélaginu. Aðferðin sem félagið beitir er hin svokallaða skátaaðferð en hún byggir á flokkastarfi, jafningjafræðslu, hópvinnu, útilífi, þátttöku í alþjóðastarfi og ýmsum skipulögðum verkefnum sem jafnframt tengja saman þessa þætti.

Stefna Landnema

Öflugt gæðafélag

Það er stefna félagsins að uppfylla kröfur BÍS til gæðafélags en það felur í sér m.a. að hafa skilgreinda stefnu í ýmsum málum auk þess að hafa skilgreint skipulag, áætlanir o.fl.

Skipulag félagsins

Lög – Félagið hefur sett sér lög

Skipurit  félagsins – Skipulagi félagsins er lýst í skipuriti

Stjórn – Félagið hefur stjórn og í lögum félagsins er hlutverk stjórnarmanna skilgreint svo og hvaða kröfur eru gerðar til þeirra.

Foringjar – Það er stefna félagsins að hafa góða foringja. Foringjum er boðið upp á þjálfun og tryggð er eðlileg nýliðun.
Eftirfarandi kröfur eru gerðar til  foringja:  Sveitarforingjar og æðri skulu vera orðnir 18 ára, vera lögráða, hafa hreint sakavottorð, hafa þekkingu á skyndihjálp, þekkingu á skátastarfi, hafa áhuga á að starfa með börnum, vera heiðarlegur, vera skipulagður, vera snyrtilegur, hafa frumkvæði, hafa stjórnunarhæfileika, vera góður í mannlegum samskiptum, hafa sótt námskeið fyrir skátaforingja og starfa eftir skátalögum.

Sveitarforingjar félagsins og æðri foringjar skrifi undir drengskaparheit.

Foringjaráð – í félaginu starfi foringjaráð og er það vettvangur til stefnumótunar og upplýsingagjafa. Foringjaráði hittist reglulega.

Stefnur í ýmsum málum

Umhverfisstefna

Það er stefna félagsins að nýta umhverfið sem best. Í starfi félagsins í skátaheimilinu og í ferðum og útilegum séu rusl og úrgangur flokkaðir í a.m.k. eftirtalda flokka: Lífrænn úrgangur, pappír og pappi, rafhlöður og annar efnaúrgangur og almennt rusl og hverjum flokki skilað við lok atburðar á viðeigandi förgunarstað.

Stefna um meðferð barna

Hjá félaginu gilda þær reglu í samskiptum við börn og unglinga að þeim sé sýnd virðing og tillitsemi. Hjá félaginu skal árlega fara fram kynning á barnasáttmála SÞ í skátaheimili félagsins.

Stefna í foreldrasamstarfi

Kallað er eftir aðstoð foreldra þegar þörf er á við rekstur einstakar viðburða s.s. í félagsútilegum og á skátamótum. Boðið verði upp á a.m.k. einn viðburð á ári þar sem skátar og fjölskyldur þeirra geta tekið þátt s.s. gönguferð, dagsferð, tjaldútilegu e.þ.h.

Starfsmannastefna

Starfslýsing skal vera til fyrir þá starfsmenn sem ráðnir eru til starfa fyrir félagið. Starfsmenn afli sér tilskilinnar þekkingar t.d. með því að sækja viðeigandi námskeið hjá BÍS eða annarsstaðar.

Fjárhagur

Það er stefna félagsins að afla nægjanlegra tekna til að standa straum af stofn- og rekstrarkostnaði sem hlýst af því að framfylgja stefnu félagsins að öðru leiti. Tekananna skal aflað með leigu á aðstöðu og búnaði, þjónustuverkefnum fyrir aðila og með styrkumsóknum vegna einstakra verkefna og/eða viðburða. Tekjur vegna félagsgjalda skal stilla í hóf eins og frekast er unnt.

Eignir

Það er stefna félagsins að eiga það sem er nauðsynlegt vegna starfsemi félagsins þannig að hún sé tryggð. Um er að ræða skátaheimili, skátaskála, viðlegubúnað (sem ekki er á færi félaganna að eiga sjálfir). Einnig að nýta umhverfi skátaheimilisins betur fyrir skátastörf.

Tryggingar eigna

Það er stefna félagsins að tryggja eigur sínar á eðlilegan hátt svo ekki komi til fjárhagslegra áfalla af völdum ófyrirséðra atburða.

Forvarnarstefna

Félagið leggur áherslu á heilbrigt líferni. Notkun tóbaks, áfengis eða fíkniefna er bönnuð í starfi félagsins, bæði í ferðum og húsnæði. Áhersla er lögð á hollan mat, réttan klæðnað og eðlilega hreyfingu.  Lögð er áhersla á fræðslu frekar en hótanir um viðurlög við „brotum“ á óskráðum reglum.

Áætlanir

Starfsáætlanir

Fyrir upphaf starfsárs skal foringjaráð setja saman nákvæma starfsáætlun fyrir komandi starfsár. Á aðalfundi er lögð fram starfsáætlun til 5 ára í senn. Áætlanir skulu vera aðgengilegar fyrir skáta og foringja í félaginu á netinu og/eða í félagsblaði.

Nýliðunaráætlun

Félagið stendur fyrir markvissum kynningar i skólum á starfssvæðinu í upphafi skólaárs á hverju hausti. Þar skal dreifa bæklingum um skátastarf, vera með myndir og útbúnað. Einnig upplýsingar um hvað það kostar, hvenær fundað er, o.s.frv. Félagið skal vera sýnileg í hverfinu með virkri þátttöku í hverfisstarfi, svo sem samstarfi við SAMTAKA-hópinn. Einnig með birtingu greina í hverfisblöð eða á vefmiðlum.

Útivistaráætlun

Í félaginu er lögð áhersla á útivist. Félagið standi fyrir félagsútilegum og árlegu skátamóti. Sveitir stundi útistarf með ýmsum hætti; með dagsferðum, sveitarútilegum, víðavangsleikjum og lögð er sérstök áhersla á utanhúsfundi. Einnig göngu- og fjallaferðum. Útivistin taki mið af aldri, þroska og reynslu þátttakendanna og tryggt skal að nauðsynlegar varúðarráðstafanir séu gerðar fyrirfram svo sem að   ferðaáætlun liggi fyrir, nauðsynleg leyfi séu fyrir hendi, tryggingar þátttakenda séu í lagi o.þ.h.

Eineltisáætlun

Foringjar í félaginu eru vakandi gagnvart  einelti og gera viðeigandi ráðstafanir verði þeir varir við að slíkt sé í uppsiglingu.  Verði foringjar eða starfsmenn varir við einelti er það hlutverk þeirra að taka málið upp við foreldra/forráðamann þeirra sem um ræðir og síðan setja málið í réttan farveg hjá viðkomandi fagaðila (skólasálfræðingur e.þ.h.).

Forvarnaráætlun

Gerð verði vinnuáætlun um hvernig foringi skuli bregðast við verði hann var við að skáti eða annar foringi fylgir ekki  stefnu félagsins í forvörnum. Hér skiptir líka miklu máli að foringjar séu góðar fyrirmyndir og að allt tal um áfengi, tóbak eða önnur fíkniefni séu ekki á dagskrá í umræðum eða á fundum nema þá til fræðslu um skaðsemi þeirra. Sama gildir, þ.e. að vera ekki með óviðeigandi  upplýsingar, texta eða myndir, á stöðum þar sem allir hafa aðgang að s.s. á vefsvæðinu facebook o.þ.h.

Friðaráætlun

Félagið leggur áherslu á frið milli manna og þjóða. Með áherslu á samstarf við erlenda skáta og virkri þátttöku í  friðsamlegum viðburðum með þátttakendum frá mörgum löndum stuðlar félagið að aukinni kynningu manna- og þjóða í milli. Sérstök áhersla er lögð á bræðralagssönginn og innihald hans.

Viðbrögð við broti á forvarnarstefnu

Vinnuáætlun um hvernig foringi skuli bregðast við verði hann var við að skáti eða annar foringi fylgir ekki stefnu félagsins í forvörnum.

Viðbrögð Landnema við brotum á forvarnarstefnunni í starfi félagsins eru í formi fræðslu og ábendinga. Viðbrögð félagsins skulu ávallt mótast af vilja til að aðstoða skátann við að hann sjái sér hag í að fylgja stefnunni og haldi áfram að starfa innan félagsins.

Hlutverk foringja

Verði foringi var við að forvarnarstefna félagsins sé brotin ber honum að:

  • Ræða við viðkomandi einstakling og gera honum grein fyrir málinu og alvarleika þess.
  • Upplýsa stjórn Landnema um brotin. Stjórn ákveður næstu skref í málinu.

Hlutverk stjórnar

Hlutverk stjórnar er að:

  • Tryggja að allir skátar í félaginu séu meðvitaðir um stefnu félagsins.
  • Gera forvarnarstefnu Landnema sýnilega og aðgengilega, t.d. á heimasíðu.
  • Kynna stefnuna og þessa vinnuáætlun fyrir foringjum og öðrum sem gegna ábyrgðarstöðum innan félagsins.

 

Brjóti skáti í félaginu ítrekað gegn stefnu félagsins ber stjórninni að bregðast við á eftirfarandi hátt:

  • Ræða við viðkomandi einstakling og forráðamenn hans og gera þeim grein fyrir málinu, alvarleika þess og hugsanlegum afleiðingum.
  • Eftir atvikum, leita til sérfræðinga um lausn á málinu.
  • Vísa skátanum úr félaginu ef hann treystir sér ekki til að fylgja forvarnarstefnu félagins.

 

Aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í jafnréttismálum 2015-2019

http://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skjol_utgefid_efni/adgerdaaaetlun_reykjavikurborgar_i_jafnrettismalum_2015-2019.pdf

 

Forvarnastefna Reykjavíkurborgar 2014 – 2019

http://reykjavik.is/sites/default/files/forvarnastefna_reykjavikur_net.pdf

 

Ábyrgt Æskulýðsstarf

http://skatamal.is/um_okkur/abyrgt-skatastarf/