Pollanámskeið útilífsskólans

Útilífsskólinn býður upp á eitt pollanámskeið fyrir 5 og 6 ára í sumar vikuna 27. – 31. júlí.

Námskeiðið er ekki jafn krefjandi og þau sem eru fyrir eldri krakkana en við förum mikið út og þetta verður rosalega gaman!

Skráning fer fram inn á: https://sportabler.com/shop/landnemar

Ef einhverjar spurningar vakna ekki hika við að hafa á facebook https://www.facebook.com/Landnemi eða með því að senda okkur línu á utilifsskoli@landnemi.is.

Við minnum líka á að það eru ennþá laus pláss á námskeið fyrir 8-12 ára í júlí!

Foringjaferð

Foringjahópur Landnema hélt í ævintýraferð um síðustu helgi í boði Landnema sem þakklætisvott fyrir óeigingjörn sjálfboðaliðastörf síðastliðinn vetur en allir foringjar Landnema starfa sem sjálfboðaliðar. Ferðinni var heitið á suðurlandið þar sem margar helstu náttúruperlur við þjóðveginn voru skoðaðar í óvenjulegu fámenni. Gist var í Skaftafelli þar sem gengið var á Svínafellsjökul og upp að Svartafossi. Frábær ferð í alla staði með frábæru fólki!

Sumarstarf

Í júní verður opið hús fyrir alla skáta félagsins á þriðjudögum milli klukkan 17:30 og 19. Upplýsingar um dagskrá hvers fundar verða sendar í gegnum Sportabler.

Sunnudaginn 14. júní verður dagsferð fyrir alla skáta félagsins og helgina 3. – 5. júlí förum við í útilegu á Úlfljótsvatn.

Skátastarf fellur niður tímabundið

Eftirfarandi skilaboð voru send foreldrum og forráðamönnum 
föstdaginn 20. mars 2020:

Ágætu foreldrar og forráðamenn.

Fyrr í dag gaf mennta- og menningarmálaráðuneytið út 
leiðbeinandi viðmið um íþrótta- og æskulýðsstarf í ljósi 
takmörkunar á skólastarfi og samkomum. Þar er mælst til 
þess að hlé verði gert á íþrótta- og æskulýðsstarfi þar til 
takmörkun á skólastarfi lýkur. Skátahreyfingin verður að 
sjálfsögðu við þessum tilmælum og fellir niður allt skátastarf 
þar til annað verður ákveðið.

Stjórn og foringjar skátafélagsins Landnema minna á lífsgildi
skátarhreyfingarinnar sem geta komið að góðum notum við að mæta
óvæntum og erfiðum aðstæðum en þau eru: 
  Skáti er hjálpsamur; 
  skáti er glaðvær; 
  skáti er traustur; 
  skáti er náttúruvinur; 
  skáti er tillitssamur; 
  skáti er heiðarlegur; 
  skáti er samvinnufús; 
  skáti er nýtinn; 
  skáti er réttsýnn; 
  skáti er sjálfstæður.

Þá hvetjum við alla skáta til að taka þátt verkefnum
skátahreyfingarinnar undir merkinu #stuðkví. 
Ný verkefni eru sett inn á hverjum degi meðan að þetta 
ástand varir. 
Verkefnin má finna hér: 
www.skatarnir.is/studkvi

Við hlökkum til að sjá alla skátana aftur þegar aðstæður 
leyfa. Enn er stefnt að því að halda landsmót í sumar og við 
munum hefja undirbúning af krafti þegar við hittumst á ný.

Okkar bestu kveðjur til ykkar allra,
stjórn og foringjar Landnema

Framhaldsaðalfundur

Framhaldsaðalfundurinn var haldinn skv. áætlun þann 18. mars. Boðið var upp á að þátttakendur mættu á staðinn eða tækju þátt með símafundi. Fundurinn var frekar fámennur sem ekki er undarlegt og tóku nokkrir þátt með símasambandi.

Tvö mál voru á dagskrá: Kosning eins manns í stjórn og eins í uppstillinganefnd. Var sjálfkjörið í báðar stöðurnar. Hulda María Valgeirsdóttir var kjörin í stjórn og mun taka við stöðu aðstoðarfélagsforingja hinn 1. ágúst n.k. Sigurgeir Bjartur Þórisson var kjörinn í uppstillinganefnd.

Undir liðnum önnur mál var m.a. fjallað um frestun skátaþings og aðalfundar SSR.

Aðalfundur 2020

Aðalfundur Landnema 2020 var haldinn í Háuhlíð 9 miðvikudaginn 19. febrúar kl. 20. Félagsforingi flutti skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 1.9.2018 til 31.8.2019. Gjaldkeri kynnti skoðaða reikninga félagsins fyrir starfsárið og voru þeir samþykktir. Gerðar voru breytingar á 9. grein laga félagsins, en hún er um verkaskiptingu stjórnar. Breytingin var gerð til þess að skýra hvaða stjórnarmaður færi með hvaða hlutverk í félagaþrenning-unni sem BÍS leggur áherslu á núna. Lögin, eins og þau voru samþykkt, má finna hér á síðunni undir flipanum Um félagið og þar undir Skipulag félagsins.

Þegar kom að kosningum vantað eitt framboð í stjórn og einnig fulltrúa í uppstillinga-nefnd. Var ákveðið að fresta þessum kosningum til framhaldsaðalfundar sem ákveðið var að halda að fjórum vikum liðnum, miðvikudaginn 18. mars kl. 20.

Undir liðnum önnur mál benti Sigurður Viktor Úlfarsson á að aðalfundartíminn væri ekki heppilegur þar sem meira en 5 og 1/2 mánuður er liðnn síðan starfsárinu lauk. Hann benti á að e.t.v. væri heppilegra að halda aðalfundinn í nóbember sama ár og starfsári lýkur frekar en svona seint.

Fundarstjóri var Sigrún Sigurgestsdóttir og fundarritari var Sigurbjörg Sæmundsdóttir. Fundargerðin er aðgengileg fyrir alla foringja Landnema. Gestir fundarins voru Ásgerður Magnúsdóttir f.h. BÍS og Sigurbjörg Sæmundsdóttir f.h. SSR.