top of page

DREKASKÁTAR

Glaðværð  -  Orka -  Hjálpsemi

Fundartími: Þriðjudagar kl. 17:30 – 18:45
Sveitarforingjar: Júlía, Guðrún Blöndal og Þórir

Drekaskátar eru á aldrinum 7 – 9 ára. Drekaskátar einbeita sér að mestu leyti að leikjum og skemmtilegum verkefnum sem styrkja ýmsa dýrmæta eiginleika svo sem traust, þolinmæði, samvinnu, samkennd og sjálfsbjargarviðleitni.

Á þessum yngstu árum í skátastarfi öðlast skátarnir grunn í allskyns færni sem þau skerpa enn fremur á efri aldursbilum. Þrátt fyrir ungan aldur eru skyndihjálp, útieldun, rötun, náttúruvitund og útivera í ýmsum aðstæðum á meðal þess sem drekaskátar fá að reyna.

 

Drekaskátar starfa í hópi sem kallast skátasveit og telur allt að 24 skátum en í Landnemum kallast drekaskátasveitin Huginn & Muninn eftir hröfnum Óðins. Þeim er oft skipt upp í minni hópa þegar verkefni eru unnin.

Dagskráin er fjölbreytt yfir árið en tekur iðulega mið af áhuga og getu hópsins ásamt árstíð hverju sinni. Á þessum vikulegu fundum kynnast skátarnir sífellt betur og öðlast smám saman færni til að takast á við stærri áskoranir. Drekaskátar fara gjarnan í styttri ferðir og útilegur með sínu skátafélagi en taka síðan þátt í hluta af lengri ferðum með eldri skátum félagsins s.s. félagsútilegum og skátamótum þar sem þau upplifa hvað bíður þeirra á efri aldursbilum skátastarfs. 

 

Á vegum Bandalags íslenskra skáta, landssamtaka skátafélaganna, eru árlega haldnir tveir viðburðir fyrir drekaskáta. Drekaskátadagurinn sem er dagsviðburður þar sem drekaskátar af öllu landinu koma saman og spreyta sig á ýmsum fjörugum áskorunum. Ásamt honum er Drekaskátamót sem er síðan haldið í júní á hverju ári. Mótið er vanalega haldið á Úlfljótsvatni þar sem drekaskátar af öllu landinu koma saman, reisa tjaldbúð, taka þátt í fjölbreyttri dagskrá og gista eina nótt í tjaldi.

 

Hér er hægt að lesa meira um starf drekaskáta.

20190601_163940 (1).jpg
20190321_180602 (1).jpg
bottom of page