top of page
27164853_1614973958582075_5893357425762981205_o_edited_edited.jpg

Saga félagsins

Landnemar-4.png

Skátafélag Reykjavíkur (SFR), hið fyrsta og jafnframt fyrsta skátafélag landsins, var stofnað 2. nóvember 1912. Félagið starfaði í fimm ár. Skátafélagið Væringjar var stofnað í Reykjavík hálfu ári síðar, eða 23. apríl 1913. Kvenskátafélag Reykjavíkur (KSFR) var stofnað 7. júlí 1922 og var það fimmta skátafélagið sem stofnað var á landinu og jafnframt fyrsta kvenskáta­félagið. Skátafélagið Ernir er síðan stofnað í Reykjavík árið 1924. Fjórtán árum síðar eða 18. september 1938 sameinast skátafélögin Væringjar og Ernir og við samrunan varð til Skátafélag Reykjavíkur, hið síðara.

Nafn skátafélagsins Landnemar má rekja til skátasveitarinnar Landnemar, sem stofnuð var í Skátafélagi Reykjavíkur hinn 9. janúar 1950. Sveitin stækkaði og var breytt í skátadeild  hinn 3. desember 1955. Þegar Skátafélag Reykjavíkur og Kvenskátafélag Reykjavíkur voru lögð niður sameinuðust deildir þessara tveggja félaga og mynduðu ný skátafélög fyrir pilta og stúlkur. Skátafélagið Landnemar varð til með sameiningu deildanna Landnemar SFR og Úlfynjur KSFR hinn 26. mars 1969. Í Úlfynjum störfuðu tvær kvenskáta­sveitir: Kvenskörungar og Pilsvargar.

 

Bandalag íslenskra skáta (BÍS) var stofnað 6. júní 1924. Var það viðurkennt af Alþjóðabandalagi skáta sama ár. Kvenskátasamband Íslands var síðan stofnað 23. mars 1939. Fimm árum síðar, eða 1944, er Kvenskátasamband Íslands lagt niður og gengu kvenskátafélög í BÍS. Þar með varð Bandalag íslenskra skáta fyrsta skátabandagið í heiminum sem hafði pilta og stúlkur innan félaga sinna. BÍS varð fullgildur aðili að Alþjóðabandalagi kvenskáta 1954.

Skátasamband Reykjavíkur (SSR) var stofnað af SFR og KSFR hinn 25. nóvember 1963. 

Sjálfseignarstofnunin  skátaheimili  Landnema   –   SSL

Eldri Landnemar, sem lagt höfðu stund á fjáröflun fyrir félagið um árabil, beittu sér fyrir því árið 1984 að stofnuð yrði sjálfseignarstofnun fyrir skátaheimilið, sem byggt var fyrir tilstuðlan þeirra við Snorrabraut. Það húsnæði var selt í maí 2000 og keypti SSL ásamt Skátasambandi Reykjavíkur (SSR) nýtt hús fyrir starfsemi Landnema að Háuhlíð 9. Stofnunin (SSL) og skátafélagið Landnemar eiga skátaskálann Þrymheim, en hann stendur við Skarðsmýrarfjall. SSL annast rekstur þessara húseigna, sem báðar eru teiknaðar af sama arkitektinum, Skarphéðni Jóhannssyni. Skátafélagið á aðild að SSL og einn stjórnarmaður (meðstjórnandi) félagsins er jafnframt stjórnarmaður í SSL. Stjórnarmenn í SSL hafa atkvæðisrétt á aðalfundum skátafélagsins. Allir Landnemar, 15 ára og eldri, geta orðið aðilar að SSL.

Landnemahrópið

Heill, gæfa, gengi.
Landnemar lifi lengi.
B-R-A-V-Ó.
Bravó, bravó, BRAVÓ!

Landnemasöngurinn

Skátar við skulum 
skátalög halda
skapa og byggja upp Landnemadeild.
Kjörorðið kunna
kostum að unna
knáir að störfum sem djarfhuga heild.
Áfram, allir við viljum
efla deildarinnar hag.
Við viljum allir vinna
vonum hennar sinna
vanda okkar hjartalag.

           Lag: Öxar við ánna

bottom of page